Heimsendakomplexinn
Það virðist vera partur af þankagangi okkar, a.m.k. í flóknum samfélögum, að hugmyndin um yfirvofandi hörmungar á heimsvísu eða heimsendi hefur sérkennilegt aðdráttarafl. Að hluta til er þetta vafalaust komið til af því að heimsendir fókuserar tilveruna þannig að ekkert annað skiptir máli. Öll okkar hversdagslegu vandamál hverfa og við verðum að einbeita okkur að því eina sem er á dagskrá. Þannig verður heimsendatrú að e.k. veruleikaflótta þar sem flókin og stressandi tilvera verður einföld.

Reiðmennirnir fjórir (oftast taldir plága, stríð, hungur og dauði) eru enn fastur liður hjá heimsendaspámönnum. Viktor Mikhailovich Vasnetsov, Public domain, via Wikimedia Commons
Kannski skiptir þó annað meira máli. Við erum félagsverur sem höfum talið okkur trú um að við verðum að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir eigin hagsmuni. Þannig félagsmótum við hvert annað og ýtum undir hegðun sem gagnast heildinni, samfélaginu. Þannig hefur samfélagið stjórn á hegðun einstaklinganna sem mynda það og fær þá til að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir eigin hagsmuni, a.m.k. í orði kveðnu og í opinberri umræðu. Gott og illt snúast um þetta, að taka ekki eigin hagsmuni og hvatir fram yfir hagsmuni annarra. Þess vegna er umræðan um gott og illt er svo mikilvæg og miðlæg í okkar samfélagi því að fyrsta hvöt hvers einstaklings er einmitt að þjóna eigin hagsmunum. Vissulega höfum við hvöt til að vinna saman og hjálpa öðrum sem virðist vera meðfædd en hún er ekki nærri eins sterk og hvötin til að þjóna eigin hagsmunum. Við sem samfélag stjórnum hegðun fólks með því að dæma hana góða eða slæma. Slíkir gildisdómar eru lykilatriði í því að láta samfélagið virka. Gildisdómar þjóna því hlutverki að tryggja hag heildarinnar fremur en hag einstaklinganna og þeir ganga oft þvert gegn okkar eigin sjálfsbjargarhvöt. Allir aðrir en siðblindingjar vita upp á sig sökina, finna fyrir sjálsbjargarhvötinni og hvernig hún oft á tíðum vinnur gegn heildarhagsmunum, því „góða“ í heiminum. Við vitum því að við erum öll sek, við erum syndug og full af sektarkennd yfir því að vera of eigingjörn og ekki nógu fórnfús. Samfélagið (og oft á tíðum guðir sem fulltrúar þess) refsar fyrir andsamfélagslega eða eigingjarna hegðun og þar sem við erum öll syndug eigum við öll skilið að vera refsað. Þess vegna hljómar það svo vel að Kristur geti frelsað okkur undan syndinni og þeirri refsingu sem við vitum að við eigum sannarlega skilið. Heimsendir er hluti af mörgum trúarbrögðum og má líta á hann sem hina endanlegu refsingu fyrir syndir okkar. Mannkynið er ófullkomið og eigingjarnt og á því skilið að vera refsað með einhvers konar heimsendi og það er ekki annað en skáldlegt réttlæti (fremur en guðlegt) ef sú refsing kemur sem afleiðing eignigjarnrar hegðunar. Við höfum misnotað jörðina í eigingjörnum tilgangi og nú kemur það okkur í koll. Jörðin sjálf (jafnvel gyðjan Móðir Jörð eða Gaia) mun refsa okkur með hnattrænni hlýnun, farsóttum, hruni vistkerfa eða öðrum hörmungum.
Þess vegna höfðar það svo sterkt til margra að „hamfarahlýnun“ sé refsing fyrir syndir okkar gegn Móður Jörð. Þess vegna hefur svo margt fólk tilhneigingu til að gera hlýnun jarðar að yfirvofandi hruni siðmenningar eða jafnvel heimsendi. Hlýnun er vissulega stórt vandamál en mannkynið hefur alla tíð lagað sig að aðstæðum og engin ástæða til að ætla að það hætti því allt í einu núna.
Það er afskaplega erfitt að hugsa rökrétt um mannlegt samfélag. Sem þátttakendur í því höfum alltaf tilhneigingu til fella gildisdóma um hegðun fólks vegna þess að það er þannig sem samfélagið lætur okkur stýra hegðun hvers annars. Fyrstu viðbrögð okkar eru því oftast að fella dóma, jafnvel um mannkynið í heild, fremur en að reyna að skilja samhengi hlutanna. Við áttum okkur yfirleitt ekki á því að gildisdómar eru stjórntæki fremur en sannleikur. En kannski verðum við að trúa því að þeir séu sannleikur til þess að þeir virki sem stjórntæki!