Færslusafn fyrir flokkinn: Vangavalt

Heimsendakomplexinn

Það virðist vera partur af þankagangi okkar, a.m.k. í flóknum samfélögum, að hugmyndin um yfirvofandi hörmungar á heimsvísu eða heimsendi hefur sérkennilegt aðdráttarafl. Að hluta til er þetta vafalaust komið til af því að heimsendir fókuserar tilveruna þannig að ekkert annað skiptir máli. Öll okkar hversdagslegu vandamál hverfa og við verðum að einbeita okkur að því eina sem er á dagskrá. Þannig verður heimsendatrú að e.k. veruleikaflótta þar sem flókin og stressandi tilvera verður einföld.

Reiðmennirnir fjórir (oftast taldir plága, stríð, hungur og dauði) eru enn fastur liður hjá heimsendaspámönnum. Viktor Mikhailovich Vasnetsov, Public domain, via Wikimedia Commons

Kannski skiptir þó annað meira máli. Við erum félagsverur sem höfum talið okkur trú um að við verðum að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir eigin hagsmuni. Þannig félagsmótum við hvert annað og ýtum undir hegðun sem gagnast heildinni, samfélaginu. Þannig hefur samfélagið stjórn á hegðun einstaklinganna sem mynda það og fær þá til að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir eigin hagsmuni, a.m.k. í orði kveðnu og í opinberri umræðu. Gott og illt snúast um þetta, að taka ekki eigin hagsmuni og hvatir fram yfir hagsmuni annarra. Þess vegna er umræðan um gott og illt er svo mikilvæg og miðlæg í okkar samfélagi því að fyrsta hvöt hvers einstaklings er einmitt að þjóna eigin hagsmunum. Vissulega höfum við hvöt til að vinna saman og hjálpa öðrum sem virðist vera meðfædd en hún er ekki nærri eins sterk og hvötin til að þjóna eigin hagsmunum. Við sem samfélag stjórnum hegðun fólks með því að dæma hana góða eða slæma. Slíkir gildisdómar eru lykilatriði í því að láta samfélagið virka. Gildisdómar þjóna því hlutverki að tryggja hag heildarinnar fremur en hag einstaklinganna og þeir ganga oft þvert gegn okkar eigin sjálfsbjargarhvöt. Allir aðrir en siðblindingjar vita upp á sig sökina, finna fyrir sjálsbjargarhvötinni og hvernig hún oft á tíðum vinnur gegn heildarhagsmunum, því „góða“ í heiminum. Við vitum því að við erum öll sek, við erum syndug og full af sektarkennd yfir því að vera of eigingjörn og ekki nógu fórnfús. Samfélagið (og oft á tíðum guðir sem fulltrúar þess) refsar fyrir andsamfélagslega eða eigingjarna hegðun og þar sem við erum öll syndug eigum við öll skilið að vera refsað. Þess vegna hljómar það svo vel að Kristur geti frelsað okkur undan syndinni og þeirri refsingu sem við vitum að við eigum sannarlega skilið. Heimsendir er hluti af mörgum trúarbrögðum og má líta á hann sem hina endanlegu refsingu fyrir syndir okkar. Mannkynið er ófullkomið og eigingjarnt og á því skilið að vera refsað með einhvers konar heimsendi og það er ekki annað en skáldlegt réttlæti (fremur en guðlegt) ef sú refsing kemur sem afleiðing eignigjarnrar hegðunar. Við höfum misnotað jörðina í eigingjörnum tilgangi og nú kemur það okkur í koll. Jörðin sjálf (jafnvel gyðjan Móðir Jörð eða Gaia) mun refsa okkur með hnattrænni hlýnun, farsóttum, hruni vistkerfa eða öðrum hörmungum. 

Þess vegna höfðar það svo sterkt til margra að „hamfarahlýnun“ sé refsing fyrir syndir okkar gegn Móður Jörð. Þess vegna hefur svo margt fólk tilhneigingu til að gera hlýnun jarðar að yfirvofandi hruni siðmenningar eða jafnvel heimsendi. Hlýnun er vissulega stórt vandamál en mannkynið hefur alla tíð lagað sig að aðstæðum og engin ástæða til að ætla að það hætti því allt í einu núna.

Það er afskaplega erfitt að hugsa rökrétt um mannlegt samfélag. Sem þátttakendur í því höfum alltaf tilhneigingu til fella gildisdóma um hegðun fólks vegna þess að það er þannig sem samfélagið lætur okkur stýra hegðun hvers annars. Fyrstu viðbrögð okkar eru því oftast að fella dóma, jafnvel um mannkynið í heild, fremur en að reyna að skilja samhengi hlutanna. Við áttum okkur yfirleitt ekki á því að gildisdómar eru stjórntæki fremur en sannleikur. En kannski verðum við að trúa því að þeir séu sannleikur til þess að þeir virki sem stjórntæki! 

Sögur og veruleiki

Þegar vð segjum sögur, hvort sem það eru lygasögur, skrítlur, goðsagnir, skáldsögur, þjóðsögur, leikrit, kvikmyndir eða sagnaljóð, þá tökum við element úr raunveruleikanum og endurröðum þeim þannig að þau fá tilgang, merkingu, boðskap, örlög eða karma. Ekkert af þessu er til í raunveruleikanum en er hins vegar mikilvægt í söguveruleikanum. Í söguveruleikanum fær lífið tilgang og merkingu og þannig fá sögur eiginleika sem raunveruleikinn hefur alls ekki. Sannar sögur eru því ekki til (þótt einhverjir hlutar þeirra geti verið sannir). En sögur hafa heldur ekki það hlutverk að segja satt heldur að innræta okkur hugmyndir sem eru á einhvern hátt gagnlegar fyrir samfélagið eða einhverja aðila inna þess. Slíkar hugmyndir þurfa alls ekki að vera sannar og eru sennilega oftar en ekki ranghugmyndir, en gagnlegar ranghugmyndir. Dæmi um slíkt er auðvitað trúarbrögð sem auðvitað er enginn fótur fyrir í raunveruleikanum en í söguveruleikanum virka þau vel til að auka samheldni samfélaga. Við gerum nefnilega sjaldnast skýran greinarmun á raunveruleikanum og söguveruleikanum. Oft, jafnvel oftast, trúum við því að merking og boðskapur söguveruleikans gildi líka í raunveruleikanum og þannig blekkjum við sjálf okkur til að tileinka okkur hegðunarmynstur sem hentar samfélaginu. Dæmi um þetta er ranghugmyndin um frjálsan vilja sem er raunar merkingarleysa en virkar vel til að undirbyggja dóma sem við fellum um sjálf okkur og aðra. Slíkir dómar eiga að gera okkur ábyrg gerða okkar og eru nauðsynlegir sem félagslegt aðhald (en auðvitað er það fremur íronískt að hugmyndin um frjálsan vilja hafi það hlutverk að takmarka valkosti okkar).

Sögur eru þannig aðferð samfélagsins til að innræta okkur hugmyndir, einkum gagnlegar ranghugmyndir. Þannig verða þær mikilvægt stjórntæki hegðunar í mannlegum samfélögum. Nú mætti koma með þá mótbáru að við segjum sögur vegna þess að við höfum gaman af því og erum yfirleitt alls ekki að hugsa um hag samfélagsins þegar við segjum þær. Sú mótbára er í sjálfu sér alveg rétt nema hvað við þurfum ekki að vera meðvituð um hlutverk sagna til að þær virki sem samfélagslegt stjórntæki. Ekki frekar en gen sem stjórnar gerð augans eru meðvituð um að tilgangurinn er að lífveran sjái umhverfi sitt. Hér er gagnlegt að gera greinarmun á nærskýringu (proximate cause) og endaskýringu (ultimate cause). Nærskýringin á sagnaáráttu okkar er auðvitað að við höfum gaman af sögum og þurfum ekkert að vera meðvituð um annað (og erum það yfirleitt ekki). En við getum líka spurt: hvers vegna höfum við gaman af sögum? Þá erum við að leita að endaskýringunni sem segir okkur hvers vegna tegund okkar þróaði með sér þá sérstæðu áráttu að vera sífellt að segja og hlusta á sögur. Oftast eru þetta sögur sem hafa ekkert augljóst notagildi í lífi fólks og gætu þannig virst hrein tímasóun. En notagildið er ekki fyrir einstaklingana heldur fyrir samfélagið í heild því sögurnar eru mjög áhrifamiklar í að móta hegðun einstaklingnna þannig að það gagnist samfélaginu. Það gildir ekki endilega um allar sögur, enda þarf þess ekki; það sem skiptir máli er að við erum stöðugt að segja sögur og nógu margar þeirra dreifa hegðun og hugmyndum sem eru á einhvern hátt gagnlegar, jafnvel þótt þær séu oft rangar í vísindalegum skilningi.

Samfélög forfeðra okkar, þar sem fólk sagði sögur, hafa því virkað miklu betur en þau sem ekki sögðu sögur og slík samfélög blómstruðu og fjölguðu sér á meðan þau sögulausu týndu tölunni. Samfélög með sögur höfðu meiri samheldni, nánari félagstengsl og virkuðu í alla staði betur sem samvinnueiningar. Vel má vera að þetta hlutverk sagna hafi átt meginþátt í að tungumálið varð yfir höfuð til; að hlutverk tungumálsins hafi meira verið að skapa sameiginlegan hugmyndaheim (oftast með heilmiklu af gagnlegum ranghugmyndum) fremur en að skiptast á upplýsingum um staðreyndir.

Það sem mest er metið er jafnan ofmetið

Þetta hljómar kannski eins og ómerkileg og jafnvel öfundsjúk kaffihúsaspeki. En raunar er þetta byggt á vísindalegum rannsóknum og hreinni lógík. Félagsfræðingurinn Robert Merton sýndi fram á það sem hann kallaði Matteusaráhrifin eftir að hafa rannsakað hvaða áhrif birting ritrýndra vísindagreina hafði á orðspor samhöfunda. Niðurstaðan var mjög einföld regla: því meira álits sem þú naust fyrir, því meira batnaði orðspor þitt við birtingu greina. Sem sagt, ef tveir höfundar skrifuðu grein saman, annar frægur og virtur en hinn óþekktur, þá græddi sá frægi miklu meira á birtingunni. Þetta leiðir af sér meginreglu sem má orða svona: „því meira sem þú hefur, því meira færðu.“ Þetta gildir ekki bara í orðspori vísindamanna heldur um mörg, jafnvel flest, gæði í mannlegu samfélagi og raunar víðar. Í netfræðum er þetta kallað „preferential attachment“ en ég nenni ekki að útskýra af hverju (enda fremur klúðurslegt hugtak).

Óhjákvæmileg afleiðing af þessu er sú að orðspor og virðing hafa tilhneigingu til að velta upp á sig eins og snjóbolti. Því frægari sem einhver er, því fleiri eru að ræða um hann eða hana og við það vex frægðin enn og þegar það gengur lengst má segja að samfélagið í heild sammælist um að líta á viðkomandi sem höfuðsnilling og það álit verður hluti af samfélagsáttmálanum. Það verður viðurkennt að Van Gogh hafi verið (einn) mesti i málari allra tíma jafnvel þótt það sé bara samkomulagsatriði og alveg mætti hugsa sér að hann hefði aldrei orðið frægur en í stað hans hefðum við hampað einhverjum öðrum gleymdum snillingi. Þetta hlýtur að leiða til þess að hugmyndir okkar um ágæti fólks fara að líkjast power-law dreifingu, alveg eins og skipting auðs í samfélaginu fer að líkjast Pareto-dreifingu (sem er afbrigði af power-law) og af sömu ástæðu; því meira sem þú hefur, því meira færðu. Power-law dreifing lítur út eins og skyggði hlutinn á myndinni að neðan. Flestir hafa svo sem ekkert sérstakt orðspor en sífellt færri hafa meira og meira.

 

NormalPowerLaw

Á hinn bóginn má ætla að raunverulegir hæfileikar fólks dreifist nokkurn veginn random og sýni því normaldreifingu, eins og á myndinni. Þannig að ef allir væru metnir að verðleikum sæjum við einnig normalkúrfu þar í stað power-law dreifingar.

Ef við leggjum saman normaldreifingu og power-law dreifingu, eins og hér er gert, kemur því í ljós að þeir sem eru með mest orðspor hljóta að vera ofmetnir en meðalmanneskjan er vanmetin. Sennilega gildir það ekki aðeins um einstaklinga heldur ýmis önnur fyrirbæri (listaverk, hugmyndir, kenningar)

Ergo: Það sem mest er metið er jafnan ofmetið.

Vel að merkja nær þetta til ekki endilega til áhrifa manna og hugmynda. Áhrif ráðast einmitt aðallega af áliti sem stjórnast af power-law dreifingu en endurspegla ekki hæfileika eða virði nema að hluta til.