Sögur og veruleiki

Þegar vð segjum sögur, hvort sem það eru lygasögur, skrítlur, goðsagnir, skáldsögur, þjóðsögur, leikrit, kvikmyndir eða sagnaljóð, þá tökum við element úr raunveruleikanum og endurröðum þeim þannig að þau fá tilgang, merkingu, boðskap, örlög eða karma. Ekkert af þessu er til í raunveruleikanum en er hins vegar mikilvægt í söguveruleikanum. Í söguveruleikanum fær lífið tilgang og merkingu og þannig fá sögur eiginleika sem raunveruleikinn hefur alls ekki. Sannar sögur eru því ekki til (þótt einhverjir hlutar þeirra geti verið sannir). En sögur hafa heldur ekki það hlutverk að segja satt heldur að innræta okkur hugmyndir sem eru á einhvern hátt gagnlegar fyrir samfélagið eða einhverja aðila inna þess. Slíkar hugmyndir þurfa alls ekki að vera sannar og eru sennilega oftar en ekki ranghugmyndir, en gagnlegar ranghugmyndir. Dæmi um slíkt er auðvitað trúarbrögð sem auðvitað er enginn fótur fyrir í raunveruleikanum en í söguveruleikanum virka þau vel til að auka samheldni samfélaga. Við gerum nefnilega sjaldnast skýran greinarmun á raunveruleikanum og söguveruleikanum. Oft, jafnvel oftast, trúum við því að merking og boðskapur söguveruleikans gildi líka í raunveruleikanum og þannig blekkjum við sjálf okkur til að tileinka okkur hegðunarmynstur sem hentar samfélaginu. Dæmi um þetta er ranghugmyndin um frjálsan vilja sem er raunar merkingarleysa en virkar vel til að undirbyggja dóma sem við fellum um sjálf okkur og aðra. Slíkir dómar eiga að gera okkur ábyrg gerða okkar og eru nauðsynlegir sem félagslegt aðhald (en auðvitað er það fremur íronískt að hugmyndin um frjálsan vilja hafi það hlutverk að takmarka valkosti okkar).

Sögur eru þannig aðferð samfélagsins til að innræta okkur hugmyndir, einkum gagnlegar ranghugmyndir. Þannig verða þær mikilvægt stjórntæki hegðunar í mannlegum samfélögum. Nú mætti koma með þá mótbáru að við segjum sögur vegna þess að við höfum gaman af því og erum yfirleitt alls ekki að hugsa um hag samfélagsins þegar við segjum þær. Sú mótbára er í sjálfu sér alveg rétt nema hvað við þurfum ekki að vera meðvituð um hlutverk sagna til að þær virki sem samfélagslegt stjórntæki. Ekki frekar en gen sem stjórnar gerð augans eru meðvituð um að tilgangurinn er að lífveran sjái umhverfi sitt. Hér er gagnlegt að gera greinarmun á nærskýringu (proximate cause) og endaskýringu (ultimate cause). Nærskýringin á sagnaáráttu okkar er auðvitað að við höfum gaman af sögum og þurfum ekkert að vera meðvituð um annað (og erum það yfirleitt ekki). En við getum líka spurt: hvers vegna höfum við gaman af sögum? Þá erum við að leita að endaskýringunni sem segir okkur hvers vegna tegund okkar þróaði með sér þá sérstæðu áráttu að vera sífellt að segja og hlusta á sögur. Oftast eru þetta sögur sem hafa ekkert augljóst notagildi í lífi fólks og gætu þannig virst hrein tímasóun. En notagildið er ekki fyrir einstaklingana heldur fyrir samfélagið í heild því sögurnar eru mjög áhrifamiklar í að móta hegðun einstaklingnna þannig að það gagnist samfélaginu. Það gildir ekki endilega um allar sögur, enda þarf þess ekki; það sem skiptir máli er að við erum stöðugt að segja sögur og nógu margar þeirra dreifa hegðun og hugmyndum sem eru á einhvern hátt gagnlegar, jafnvel þótt þær séu oft rangar í vísindalegum skilningi.

Samfélög forfeðra okkar, þar sem fólk sagði sögur, hafa því virkað miklu betur en þau sem ekki sögðu sögur og slík samfélög blómstruðu og fjölguðu sér á meðan þau sögulausu týndu tölunni. Samfélög með sögur höfðu meiri samheldni, nánari félagstengsl og virkuðu í alla staði betur sem samvinnueiningar. Vel má vera að þetta hlutverk sagna hafi átt meginþátt í að tungumálið varð yfir höfuð til; að hlutverk tungumálsins hafi meira verið að skapa sameiginlegan hugmyndaheim (oftast með heilmiklu af gagnlegum ranghugmyndum) fremur en að skiptast á upplýsingum um staðreyndir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s